Um Ásgarð

Ásgarður er eini leikskóli sveitarfélagsins Húnaþings vestra og er hann staðsettur á Hvammstanga. Íbúafjöldi sveitarfélagsins er 1222, 1. jan 2021. Hvammstangi stendur við Miðfjörð í Vestur- Húnavatnssýslu. Hér í kring er mikið landbúnaðarhérað og búsældarlegt um að litast. Atvinnurekstur er fjölbreyttur í þorpinu og má þar til dæmis nefna sláturhús, rækjuvinnslu, prjónaverksmiðju, trésmiðafyrirtæki, tölvu- og bókhaldsþjónustu, prentsmiðju, þvottahús, bólstrun, fjölbreyttar verslanir, söluskála og bensínstöð, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, (þar sem m.a. starfa sjúkraþjálfar og tannlæknir), hársnyrtistofur, bílaverkstæði, bílaréttingaverkstæði, pósthús, gullsmið, Landsbanki, ásamt fjölmörgum smærri fyrirtækjum.

Hér er einnig almenningsbókasafn, sundlaug, félagsheimili, Selasetur Íslands, handverksgalleríið Bardúsa, Verslunarminjasafn og gisti- og veitingarhús. Skólar á svæðinu eru, auk leikskólans, grunnskóli, tónlistarskóli og skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði. Hér er einnig fullkomin fjarfundastofa sem er mikið nýtt til hvers kyns endur- og símenntunar.

Tónlistarskólinn er öflugur og fer nemendum fjölgandi, enda fjölskrúðugt tónlistar- og sönglíf hér í Húnaþingi. Þar má nefna tónlistarfélag og barna-, kvenna-, karla- og kirkjukóra, hljómsveitir ofl.

Leikskólinn er staðsettur ofarlega í miðju bæjarins, í nálægð við Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga og Hvammstangakirkju.

Gott göngufæri er því til allra átta, hvort sem ferðinni er heitið í Kirkjuhvamminn, miðbæinn eða fjöruna. Auðvelt er að vera í góðum tengslum við atvinnu- og menningarlíf Hvammstanga.

Stór leikvöllur liggur í kringum Ásgarð og er hann búinn nokkrum leiktækjum, sandkassa, rólum o.fl. Nýting umhverfisins fer að sjálfsögðu eftir árstíðum og veðri. Einnig erum við svo heppin að hafa skrúðgarð Kvenfélagsins Bjarkar, Bjarkarás í túnfætinum og þar er yndislegt að sitja með nesti og leika sér innan um fjölbreyttan gróðurinn.

Saga Ásgarðs

Leikskóli var fyrst rekinn á Hvammstanga yfir sumarmánuðina í húsnæði Grunnskóla Hvammstanga og hófst sú starfsemi 1976. Árið 1979 var opnaður leikskóli að Höfðabraut 25 og tók hann til starfa 15. október sama ár.

Fyrsta skóflustunga að núverandi leikskólahúsnæði að Garðavegi 7 var tekin árið 1987. Leikskólabyggingin var vígð 13. ágúst 1994 og hlaut skólinn nafnið Ásgarður. Tveir þriðju hlutar byggingarinnar voru þá teknir í notkun.

Árið 2002 var allt húsnæðið komið í notkun. Yngsta deild skólans var flutt að Kirkjuvegi 12. febrúar 2006 vegna þrengsla. Nú er svo komið að það þarf að stækka skólann og var tekin skóflustunga að viðbyggingu haustið 2006.

Vorið 2004 var efnt til samkeppni um merki Ásgarðs. Tillaga Steinars Loga Eiríkssonar sem þá var nemandi skólans og fjölskyldu hans var valin. Merkið er sól og má sjá hér ofar á síðunni.

Einnig var leikskóladeild í félagsheimilinu Víðihlíð og var hún tekin í notkun október 2006.

Þann 12. desember 2007 var svo viðbygging við skólann formlega tekin í notkun. Þegar viðbyggingin var tekin í notkun flutti yngsta deildin aftur á Garðavegin og Kirkjuveginum lokað.

Leikskóladeild í félagsheimilinu Víðihlíð var lögð niður júní 2010.

Haustið 2012 var Leik- og grunnskólinn á Borðeyri settur undir skólastjórnendur í Ásgarði.

Leik - og grunnskóli Borðeyrar var lagður niður 2016.