Námskrá skólans

Námskrá yfirfarin 2022

Vangaveltur okkar

Það kom sá dagur í Ásgarði að við sem hér vinnum vildum auka gæði frjálsa leiksins, endurskoða fyrir hvað skólinn okkar stæði, hvað má betur gera, gera góðan skóla að betri skóla.

Góður skóli gjöful framtíð er einkunnarorð skólastefnu Húnaþings vestra. Þetta virkaði sem áskorun á okkur.

Við komumst að þeirri niðurstöðu að okkur langaði að:

Auka enn frekar á hamingju nemenda, styrkja enn frekar sjálfsmynd þeirra, að nemendur upplifðu að á þau væri hlustað og að þau hefðu um hlutina að segja.

Að leikur þeirra byggðist á því sem þau langaði til að gera. Allir nemendur skólans eru einstakir og með þá hugsun fórum við að líta í kringum okkur. Við vorum staðráðnar að gera breytingar á okkar skóla allar sem ein.

Við fengum foreldra í lið með okkur þeir voru tilbúnir í breytingar.

Haustið 2009 létum við til skara skríða. Starfsfólk færði fórnir hvað kaffitíma varðar. Við mætum seinna til vinnu á morgnanna eða förum fyrr heim á daginn. Tökum ekki kaffitíma yfir daginn nema einu sinni í viku. Við viljum ekki brjóta upp leik nemenda nema takmarkað og eingöngu þar sem er þörf á.

Við endurskipulögðum leiksvæði nemenda, húsnæði skólans.

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði leikskólans byggir á kenningum Mihaly Csikszentmihalyi hann er þekktur fyrir rannsóknir sínar á hamingju og sköpunargleði. Þekktastur er hann þó fyrir að vera upphafsmaður hugmyndafræðinnar flæði. Samkvæmt kenningum Mihaly er flæði þær stundir sem við njótum okkar best. Einstaklingurinn er svo niðursokkinn í athöfn að ekkert annað kemst að, verkefnið á hug hans allan og hann gleymir jafnvel stund og stað. Hlutirnir virðast gerast án áreynslu og hæfileikar hans eru fullnýttir. Reynslan sem einstaklingurinn öðlast í þessu ferli er svo gefandi að hann leggur töluvert á sig til að upplifa hana aftur. (Csikszentmihalyi, 1997).

Við höfum aðlagað námskrá leikskólans Ásgarðs að nýrri Aðalnámskrá leikskóla, 2011.