Ásgarður er eini leikskóli sveitarfélagsins Húnaþings vestra og er hann staðsettur á Hvammstanga. Íbúafjöldi sveitarfélagsins er 1222, 1. jan 2021. Hvammstangi stendur við Miðfjörð í Vestur- Húnavatnssýslu. Hér í kring er mikið landbúnaðarhérað og búsældarlegt um að litast. Atvinnurekstur er fjölbreyttur í þorpinu og má þar til dæmis nefna sláturhús, rækjuvinnslu, prjónaverksmiðju, trésmiðafyrirtæki, tölvu- og bókhaldsþjónustu, prentsmiðju, þvottahús, bólstrun, fjölbreyttar verslanir, söluskála og bensínstöð, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, (þar sem m.a. starfa sjúkraþjálfar og tannlæknir), hársnyrtistofur, bílaverkstæði, bílaréttingaverkstæði, pósthús, gullsmið, Landsbanki, ásamt fjölmörgum smærri fyrirtækjum.

Hér er einnig almenningsbókasafn, sundlaug, félagsheimili, Selasetur Íslands, handverksgalleríið Bardúsa, Verslunarminjasafn og gisti- og veitingarhús. Skólar á svæðinu eru, auk leikskólans, grunnskóli, tónlistarskóli og skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði. Hér er einnig fullkomin fjarfundastofa sem er mikið nýtt til hvers kyns endur- og símenntunar.

Tónlistarskólinn er öflugur og fer nemendum fjölgandi, enda fjölskrúðugt tónlistar- og sönglíf hér í Húnaþingi. Þar má nefna tónlistarfélag og barna-, kvenna-, karla- og kirkjukóra, hljómsveitir ofl.

Leikskólinn er staðsettur ofarlega í miðju bæjarins, í nálægð við Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga og Hvammstangakirkju.

Gott göngufæri er því til allra átta, hvort sem ferðinni er heitið í Kirkjuhvamminn, miðbæinn eða fjöruna. Auðvelt er að vera í góðum tengslum við atvinnu- og menningarlíf Hvammstanga.

Stór leikvöllur liggur í kringum Ásgarð og er hann búinn nokkrum leiktækjum, sandkassa, rólum o.fl. Nýting umhverfisins fer að sjálfsögðu eftir árstíðum og veðri. Einnig erum við svo heppin að hafa skrúðgarð Kvenfélagsins Bjarkar, Bjarkarás í túnfætinum og þar er yndislegt að sitja með nesti og leika sér innan um fjölbreyttan gróðurinn.